Merki Umhverfis- og orkustofnunar
Fréttir og viðburðir
Fleiri fréttir
26. september 2025
Námskeið í sóttvörnum vegna húðrofs - desember 2025
Umhverfis- og orkustofnun stendur fyrir námskeiðum í sóttvörnum fyrir þau sem framkvæma hvers kyns húðrof, svo sem húðgötun, húðflúrun, fegrunarflúrun og nálastungur. Námskeiðið er skylda fyrir þau sem hafa ekki lokið námi á heilbrigðissviði sem felur í sér fræðslu um smitgát og sóttvarnir. Frá og með 1. janúar 2026 þurfa allir sem stunda húðrof að geta framvísað staðfestingu þess efnis að þeir hafi setið námskeiðið eða séu með tilskylda menntun á heilbrigðissviði. Sjá nánar í 2. mgr. 34. gr. rg. nr. 903/2024 um hollustuhætti. Information on the course in English Um námskeiðið Á námskeiðinu verður farið yfir alla þætti sem snúa að framkvæmd húðrofs með sérstaka áherslu á sóttvarnir og hreinlæti. Námskeiðið er blanda af fyrirlestrum og sýnikennslu. Í lok námskeiðs þurfa þátttakendur að standast hæfnispróf. Nauðsynlegt er að hafa meðferðis eigið snjalltæki til að taka hæfnisprófið á. Kennarar á námskeiðinu eru: Ása S. Atladóttir, hjúkrunarfræðingur Brynjar Björnsson, húðflúrari Ísak S. Bragason, teymisstjóri í teymi efnamála hjá Umhverfis- og orkustofnun Sigríður Kristinsdóttir, teymisstjóri í teymi eftirlits hjá Umhverfis- og orkustofnun Stella Hrönn Jóhannsdóttir, sérfræðingur hollustuhátta hjá Umhverfis- og orkustofnun Dagsetning Þriðjudagurinn 2. desember frá kl. 9 – 16. Kennt á íslensku. Síðasti skráningardagur er 30. nóvember. Síðasti greiðsludagur 2. desember.   Námskeiðsgjald Námskeiðsgjald er 49.900 kr. Greiðsluseðill verður sendur í heimabanka umsækjanda og afrit af reikningi á mínar síður á island.is. Staðsetning Námskeiðið verður haldið á Hótel Reykjavík Grand, Sigtúni 28, 105 Reykjavík. Skráning Skráning fer fram á https://gogn.ust.is/ Skráning er staðfest þegar námskeiðsgjöld hafa verið greidd. Lágmarksfjöldi Lágmarksfjöldi á námskeiðið er 40 manns. Námskeiðið fellur niður ef ekki næst lágmarks þátttaka. Námskeiðið er fyrir þau sem framkvæma nálastungur, fegrunarflúrun, húðgötun og húðflúrun.
Manneskja að fá fegrunarflúr á augabrúnir
Viðburðir framundan
Sjá fleiri
16. september 2025
Raforkukostnaður og raforkuöryggi 2025 og 2026
Önnur útgáfa Raforkuvísa fyrir árið 2025 er nú komin út.  Þar kemur meðal annars fram að staða og horfur raforkuöryggis á fjórða ársfjórðungi 2025 og fyrsta ársfjórðungi 2026 hafa batnað samkvæmt nýjustu greiningum á orkujöfnuði, miðað við fyrri útgáfu sem birt var í apríl 2025. Þróun gjaldskráa raforkufyrirtækja Í fyrsta sinn birtir Raforkueftirlitið yfirlit yfir þróun gjaldskráa sérleyfisfyrirtækja og smásala í Raforkuvísum. Þar má sjá breytingar á dreifi- og flutningsgjöldum frá 2017 til 2025, bæði á verðlagi hvers árs og föstu verðlagi. Einnig er sýnd þróun smásöluverðs allt frá árinu 2005 til dagsins í dag. Helstu niðurstöður eru: Smásöluverð: Lægsta skráða smásöluverð í ágúst hækkaði um 35% milli ára á verðlagi hvers árs. Dreifigjöld: Dreifigjöld dæmigerðra heimila í ágúst, með notkun 4.500 kWh/ári , hækkuðu um 5% milli ára á verðlagi hvers árs. Flutningsgjöld til almennra notenda: Hækkuðu um 23% á milli ára á verðlagi hvers árs. Flutningsgjöld til stórnotenda: Hækkuðu um 27% frá fyrra ári á verðlagi hvers árs. Jöfnunarorkuverð – ný framsetning Birting upplýsinga um jöfnunarorkuverð hefur tekið verulegum breytingum. Jöfnunarorka, sem er hæsta heildsöluverð raforku og vísir að um markaðsjafnvægi milli framboðs og eftirspurnar, er nú sýnd í verðbilum (kr/kWh) þar sem gefið er til kynna hvenær um er að ræða niðurreglun, jafnvægi eða uppreglun í kerfinu. Nánar til tekið lýsa verðbilin mismunandi ójafnvægi í kerfinu og þar með sýnir breytt framsetning betur ástand markaðarins. Í fyrri útgáfum var einungis  meðalverð jöfnunarorku birt, sem gaf ekki nægilega góða mynd af sveiflum sem eiga sér stað á markaðnum. Sjálfvirknivæðing gagnaöflunar Raforkueftirlitið hefur einnig hafið endurskoðun á aðferðum við gagnaöflun og skil. Umhverfis- og orkustofnun hefur þróað nýja gagnagátt sem kemur í stað Signet Transfer, með það að markmiði að sjálfvirknivæða gagnaafhendingu. Með þessum breytingum verður unnt að einfalda verklag, tryggja meiri gæði gagna til framtíðar og stytta viðbragðstíma eftirlitsins. Sjálfvirknivæðingin mun jafnframt gera Raforkueftirlitinu kleift að framkvæma fleiri greiningar, sinna eftirlitsverkefnum og ráðast í sértækar greiningar  án þess að auka álag á eftirlitsskylda aðila með endurteknum gagnabeiðnum. 
11. september 2025
Hvar eiga loftmengunarefnin upptök sín? Ný yfirlitskort 
Kortlagning á uppsprettum loftmengunarefna sýnir að losun svifryks (PM₁₀) er mest í þéttbýli og meðfram hringveginum, losun köfnunarefnisoxíðs (NOₓ) kemur einkum frá brennslu eldsneytis í farartækjum og losun ammoníaks (NH₃) er fyrst og fremst frá landbúnaði. Loftmengunarefni draga úr loftgæðum og hafa neikvæð áhrif á heilsu fólks. Loftmengunarefni eru til dæmis svifryk, köfnunarefnisoxíð (NOₓ) og þrávirk lífræn efni. Hér fyrir neðan má sjá kort sem sýna hvar svifryk, köfnunarefnisoxíð og ammoníak voru losuð út í andrúmsloftið árið 2023. Kortin sýna aðeins hvaðan loftmengunin kemur en ekki hvernig hún dreifist. Kort fyrir önnur loftmengunarefni má finna í nýjustu landsskýrslu (kafli 8) um losun loftmengunarefna á Íslandi. Svifryk Svifryk getur borist í lungu fólks og fests þar með tilheyrandi heilsuskaða. Því minni sem svifryksagnirnar eru, því dýpra ná þær í lungun. Svifryk hefur verið tengt við aukna tíðni lungnasjúkdóma, krabbameina og hjarta- og æðasjúkdóma. Kort 1 sýnir losun svifryksagna sem eru minni en 10 míkrómetrar (PM₁₀). Áhugavert er að sjá hvernig svifrykslosun fylgir að miklu leyti hringveginum en er sérstaklega mikil í þéttbýlum og þar í kringum. Kort 1: Dreifing losunar svifryksagna minni en 10 míkrómetrar (PM₁₀) árið 2023. Köfnunarefnisoxíð Köfnunarefnisoxíð (NOₓ) er ertandi fyrir öndunarfæri, eykur áhættu á öndunarfærasýkingum og getur stuðlað að astma. Köfnunarefnisoxíð (NOₓ) er samheiti yfir tvær lofttegundir, köfnunarefniseinoxíð (NO) og köfnunarefnistvíoxíð (NO₂). Loftmengun á formi köfnunarefnisoxíðs berst aðallega frá brennslu eldsneytis í skipum og bílum eins og sést á korti 2. Kort 2: Dreifing losunar köfnunarefnisoxíðs (NOₓ) árið 2023. Ammoníak Ammoníak (NH₃) er litlaus og illa lyktandi lofttegund sem veldur óþægindum og áreiti í öndunarvegi og augum. Losun ammoníaks fylgir að mestu leyti landbúnaðarlöndum eins og sést á korti 3. Kort 3: Dreifing losunar ammoníaks (NH₃) árið 2023. Kortlagning losunar loftmengunarefna Umhverfis- og orkustofnun heldur utan um losun loftmengunarefna á Íslandi og tekur saman í skýrslu á hverju ári. Á fjögurra ára fresti er einnig kortlagt hvar losun þessara loftmengunarefnanna á sér stað. Þá er reynt að staðsetja uppsprettur mengunarinnar í rúðuneti fyrir Ísland. Íslandi er þá skipt niður í reiti þar sem hver reitur er 0,1 gráður á kant*. *Vegna þess að breiddargráður og lengdargráður eru ólíkar þá er hver reitur rúmir 11 km í áttina norður-suður og tæpir 5 km í austur-vestur.
3. september 2025
Kerfisáætlun 2025-2034
Raforkueftirlitinu barst þann 2. september 2025 kerfisáætlun Landsnets fyrir tímabilið 2025 -2034 til formlegrar meðferðar. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. b. raforkulaga nr. 65/2003 hefur Raforkueftirlitið það hlutverk að fara yfir og samþykkja kerfisáætlun Landsnets með hliðsjón af markmiðum um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, hagkvæmni, gæði raforku og stefnu stjórnvalda um lagningu strengja. Raforkueftirlitið skal við yfirferð kerfisáætlunar hafa samráð við alla núverandi og væntanlega viðskiptavini flutningsfyrirtækisins sbr. 2. mgr. 8. gr. raforkulaga í opnu og gagnsæju samráðsferli. Af þessu tilefni vill Raforkueftirlitið bjóða viðskiptavinum Landsnets og væntanlegum viðskiptavinum fyrirtækisins að koma á framfæri umsögnum vegna kerfisáætlunar 2025-2034. Þeir aðilar sem telja sig vera væntanlega viðskiptavini flutningsfyrirtækisins skulu rökstyðja það sérstaklega. Raforkueftirlitið metur hvort aðili hafi sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hann geti talist væntanlegur viðskiptavinur flutningsfyrirtækisins. Raforkueftirlitið hefur sent auglýsingu í Lögbirtingablaðið og er frestur til þess að koma á framfæri athugasemdum vegna kerfisáætlunar Landsnets 2025-2034 er fjórar vikur frá birtingu auglýsingar í Lögbirtingablaði sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 870/2016 um kerfisáætlun fyrir uppbyggingu flutningskerfis raforku. Eftir þann tíma mun Raforkueftirlitið birta þær umsagnir sem eftirlitinu berast vegna málsins á heimasíðu Raforkueftirlitsins. Þá verður Landsneti boðið að koma á framfæri athugasemdum vegna framkominna umsagna.
Loftgæði
Umhverfis- og orkustofnun heldur utan um mælingar á gæðum þess lofts sem við öndum að okkur og miðlar þeim í gegnum til þess gert vefsvæði. Á vefnum er einnig að finna mæla frá öðrum aðilum. Þeir eru í flestum tilvikum ekki nákvæmnismælar, heldur grófir skynjarar, en geta þó veitt vísbendingar um loftmengun.
Opna loftgæðavef
Orkubúskapur
Raforkuvinnsla
Vatnsafl
13.604 GWst
Jarðvarmi
5.986 GWst
Vindorka
12,7 GWst
Rafvæðing
Fólksbílar
29.764
Hópferðabílar
35
Sendibílar
1.213
Vörubilar
26
Eldsneytisnotkun
Vegasamgöngur
289 kílótonn
Skip
269 kílótonn
Flug
267 kílótonn

Gagnasöfn

Kennitala: 700924-1650

Akureyri

Rangárvellir 2, hús 8, IS-603

Reykjavík

Suðurlandsbraut 24, IS-108

Selfoss

Austurvegur 20, IS-800